Hvatberi

Thursday, May 11, 2006

Endalaust gaman

Í dag fer ég í Grundarfjörð í síðasta sinn til að kenna í Landnemaskólanum. Ég á aldeilis eftir að sakna nemenda minna, þetta eru svo skemmtilegar og frábærar konur! Ég er einmitt að fara að undirbúa mig, ætla að hafa síðasta tímann skemmtilegri en hina. (já ég veit, erfitt að toppa þá). Og mig dreymdi í nótt að ég væri einmitt með einn leik í kennslu en nemendurnir voru margfalt fleiri en venjulega og þurfti ég að skipta þeim upp í þrjá hópa (bekki) þvílíkur var fjöldinn. En draumfarir mínar eru með öflugasta móti þessa dagana, mig dreymir og dreymir á hverri nóttu, ég fæ ekki einu sinni frí í svefni, þá er ég alltaf eitthvað að vesenast.

Ég dreif mig út að hlaupa seinnipartinn í gær, náði um 4 km, en ég er orðin svo þung og stirð eftir síðustu vikur, að má heita kraftaverk að ég geti yfirhöfuð hlaupið eitthvað. Stefnan er sett á nýja hlaupaskó sem fyrst, og endurskoðun lífstíls! Ekki hægt að bíða með það lengur. Annars er eitthvað svo gaman núna, alltaf eitthvað til að hlakka til. Í kvöld eftir kennslu er útskrift í Landnemaskólanum, á morgun er ég að fara í Reykjavíkurreisu með landnemanemendunum mínum, um kvöldið í afmæli til Ásu (eða var það seinnipartinn?) eftir helgina í Keðjuferð til Reykjavíkur, svo í sveitaferð með leikskólanum, í leikhús um næstu helgi, og bara endalaust gaman...............

Wednesday, May 10, 2006

Meira

...það virðist vera einhver kvóti á lengd texta....
nema þegar við komum heim seint og um síðír ákvað ég að horfa á Napoleon Dynamite


Snilldarmynd og mér tókst að halda mér vakandi!
Hér er hægt að fá danskennslu með Napoleon

En í dag er svo alvara lífsins og baráttan við draslið.

Red Chili, Tapas og Napoleon

Eftir prófið sem btw fór fram á heitasta degi ársins so far, hitti ég þrjár á Red Chili niðri í bæ og fékk mér einn Öl í glampandi sól. Fyrir utan óskaplegan létti að vera búin í þessu, fannst mér eins og ég væri túristi í Reykjavík, já jafnvel í útlöndum því svo virðist að maður komi sjaldnar í miðborg Reykjavíkur en stórborgir erlendis. Við skvísurnar fórum síðan á Tapas barinn þar sem við hittum hinar og borðuðum saman kvöldmat sem saman stóð af sjö réttum. Eftirrétturinn var bestur en þá var ég orðin svo södd að ég hafði ekki lyst á að borða nema smá af honum. Fyrir minn smekk fannst mér vanta grænmeti með matnum sem var kjöt/fiskur í ýmsu formi. Sölvi kom svo og sótti okkur og keyrði í Kópavoginn, þegar stelpurnar voru komnar heim tíl sín, kíktum við aðeins til Fjólu og svo til Þóru. Ferðinni var svo heitið heim í Borgarnes. Þegar við nálguðumst göngin var blikkandi ljós framundan og ör sem benti til hægri. Tveir karlar sögðu okkur að við yrðum að fara Hvalfjörðinn því göngin væru lokuð frá miðnætti. Þarna var klukkan nákvæmlega 24:00 og ég sagði að við hefðum nú verið fyrr á ferðinni ef við hefðum vitað þetta. ,,Marg auglýst" sagði annar karlinn, en við Sölvi höfum bæði verið í prófum og ekki fylgst með fjölmiðlum upp á síðkastið. Það var ekki viðlit að fá að fara í gegn, þannig að við máttum fara lengri leiðina. Sölvi var bílstjóri, og taldi spottann ekki eftir sér.

Monday, May 08, 2006

Dyslexía


Þessi mynd er hárfínt grín á kostnað þeirra sem eru með dyslexíu, en þið vitið að ég meina ekkert slæmt með því. Ég var nefnilega að klára ritgerð um dyslexíu sem ég skila á morgun um leið og ég fer í prófið. Ekki veit ég hvernig það fer, altso prófið, og skil reyndar ekki hvernig mér hefur tekist að klára ritgerðina og lesa. Það sést vel á heimilinu að hér hefur ekki verið neitt nostur undanfarnar vikur eða bara síðan áður en ég fór til Póllands.

Elís Dofri er veikur eina ferðina enn og var ég heima hjá honum í dag, fyrir utan örstuttan fund í morgun. Verð líka að vera heima hjá honum í fyrramálið, eða þar til ég fer undir hádegið. Ég var reyndar að til kl. 3 síðustu nótt, og veit ekki nema að ég geri eins núna. SS sagði við mig áðan ,,mamma þú ert alltaf miklu hressari á kvöldin, í góðu skapi og ekkert geðvond" hmmm. ég er svo sannarlega B manneskja að þessu leyti. Topp manneskja annars.

Prófkvíði og frestunarárátta

Ég hef komist að því að í sambandi við suma hluti þjáist ég af syndrómi sem kallast ,,manana attitude". Það þarfnast ekki nánari skýringar, er það? Ætla alla vega ekki að tjá mig meir um það á þessari stundu. (Ég er að læra fyrir próf!)

Friday, May 05, 2006

Smá misskilningur

SS: mamma er það satt að Unnur Birna sé fallegasta kona í heimi?

Ég: já

ED:(tekur snöggt viðbragð og lítur á mig forviða) HA? Unnur Birna? ég hélt að það værir þú mamma!

Thursday, May 04, 2006

Salvör Svava og Erla Björk


Þó að mamma og Magga séu mestu skvísurnar eru þessar tvær nokkuð góðar. Tekið í íþróttahúsinu í dag, við stofnun nýs menntaskóla í Borgarnesi.

Lækkun meðaleinkunnar eða fall?

Hver fann upp enska málfræði spyr ég nú bara? Þetta mun vera í fyrsta sinn í áratugi sem ég er á leið í próf og hef ekki hugmynd um hvort ég kem til með að ná. Og ef ég næ, er eins líklegt að meðaleinkunnin mín lækki all verulega. Og þetta námsefni sem ég er ekki að skilja, er ætlað krökkum nýskriðnum úr menntaskóla.

DÆMI:

Subordinate clauses introduced by the subordinating conjunction, though, allow material to be focused by moving it to the beginning. These are known as concessive clauses because they concede points; the movement is a form of topicalisation because it focuses material.

Eruð þið með? (ps. breytti kommentakerfinu, svo nú geta allir kommentað)

Tuesday, May 02, 2006

Current English Grammar (or not)

Ég fór í Grundarfjörðinn og hitti mína kæru nemendur. Gaf þeim pólkst nammi og kenndi þeim með mikilli ánægju. Aftur á móti botna ég lítið sem ekkert í ensku málfræðinni sem ég á að vera að læra, nú eru bara tveir dagar eftir í prófið, sjitt, lifi the past subjunctive segi ég nú bara...

Monday, May 01, 2006

Skvísur


Skvisur Posted by Picasa

Þetta eru mestu skvísur sem ég þekki, mamma og Magga á Jörva. Þær bera báðar aldurinn einstaklega vel, 72 og 100 ára!

Sjálf er ég enn á náttbuxunum, að læra enska málfræði, og er komin með í bakið. (Reyndar er ég aðallega að lesa Draumalandið, og er mjög hrifin. Fyndnast finnst mér að örfáum dögum áður en að þessi bók kom út kom út önnur sem heitir Draumaland. Er að vísu um allt annað, en samt....sama hugmynd að bókartitli).

I better continue my grammar, or else....I´ll fail big time.